Skilmálar Kozmoz ehf.
Skilmálar þessir gilda á milli Kozmoz ehf., kt. 491018-1190, Selbraut 13, 170 Seltjarnarnesi, (hér eftir „Kozmoz ehf.“ eða „Kozmoz“) sem er eigandi Kozmoz appsins, og notanda um notkun á Kozmoz appinu.
Þjónusta sem Kozmoz appið veitir felst í því að bjóða notendum vettvang til að auglýsa verkefni, bjóða fram þjónustu sína sem fagmaður í viðkomandi verkefni, skoða birt verkefni, hafa samskipti við húseigendur (og/eða löglega fyrirsvarsmenn þeirra) og fagmenn innan appins og fá tækifæri til að skrifa umsagnir.
Með því að nota þjónustu Kozmoz þá lýsir notandinn því yfir að hann hafi lesið, skilið og samþykkt skilmálana í heild sinni og samþykkir einnig þá vinnslu persónuupplýsinga sínar sem fram fer í Kozmoz appinu. Óheimilt er að nota Kozmoz appið án þess að samþykkja skilmálana.
1. Skilgreiningar
Eftirfarandi hugtök skulu, í skilmálum þessum, og öðrum tengdum skjölum, hafa eftirfarandi merkingu:
Kozmoz appið: Hugbúnaður fyrir snjalltæki sem notendur geta hlaðið niður í símann sinn og notað til að auglýsa eða taka að sér verkefni.
Verkefni: Afmarkað, tímabundið verkefni sem húseigandi vill láta vinna fyrir sig gegn þóknun.
Notandi: Fagmaður, húseigenandi (notandi sem auglýsir verkefni), og aðrir sem hlaða niður appinu til að skoða það.
Kozmoz prófíll: Svæði í appinu sem inniheldur upplýsingar um notanda sem skráir sig inn til þess að vera húseigandi og/eða fagmaður. Notandi skráir sig inn með rafrænum skilríkjum og þarf einnig að skrá netfang sitt. Notandi sem bæði vill auglýsa eftir fagmanni og taka að sér verkefni sjálfur, skal gera það undir sitt hvorum prófílnum þ.e. einum Kozmoz prófíl sem húseigandi og einum Kozmoz prófíl sem fagmaður.
Fagmaður: Notandi Kozmoz appsins sem starfar í nafni fyrirtækis sem skráð hefur verið í Kozmoz appið. Notandinn getur tekið að sér verkefni fyrir húseiganda.
Húseigandi: Notandi Kozmoz appsins sem auglýsir verkefni.
Spjallrásir: Svæði sem leyfir húseigendum og fagmönnum að hafa samskipti um tiltekið verkefni. Ný spjallrás opnast fyrir hvert verkefni, jafnvel þótt húseigandi og fagmaður hafi átt samskipti um annað verkefni áður.
Prófíll: Aðgangur notanda að Kozmoz appinu og allar upplýsingar sem þar eru skráðar.
2. Virkni Kozmoz appsins
Þegar notandi hefur hlaðið niður Kozmoz appinu skráir hann sig inn með rafrænum skilríkjum.
Notandi getur sjálfur skráð sig út úr appinu. Til þess að skrá sig aftur inn notar hann sömu rafrænu skilríki. Skrái notandi sig ekki út sjálfir, skráist hann út sjálfkrafa 60 dögum eftir síðustu innskráningu.
2.1. Innskráning, aðgangar og skráning upplýsinga
Við fyrstu innskráningu verður notandi að velja hvort hann skrái sig sem húseigandi og/eða fagmaður. Notanda er skylt að skrá réttar upplýsingar. Upplýsingar sem notandi skráir verða notaðar vegna aðgangs notanda að Kozmoz appinu. Þegar notandi hefur staðfest upplýsingarnar er aðgangur sjálfkrafa stofnaður fyrir hann.
Notandi sem skráir sig sem húseigandi getur stofnað verkefni og auglýst eftir fagmanni. Til að skrá sig í appið sem fagmaður, þarf notandi að vera prókúruhafi eða framkvæmdastjóri þess fyrirtækis sem hann starfar fyrir. Ef annar aðili en prókúruhafi eða framkvæmdastjóri á að getað starfað í nafni fyrirtækisins á Kozmoz appinu (t.d. starfsmenn aðrir en stjórnendur), þarf prókúruhafi eða framkvæmdastjóri fyrst að skrá fyrirtækið og bjóða síðar öðrum starfsmönnum aðgang að fyrirtækinu.
Hver notandi er ábyrgur fyrir nákvæmni, réttmæti, áreiðanleika og heilleika upplýsinga í prófílum sínum. Notandi ber ábyrgð á því að leiðrétta og/eða uppfæra upplýsingar í sínum prófíl.
Upplýsingar um verkefni sem skráð eru, ásamt upplýsingum í aðgangi húseigenda, eru auglýstar fyrir öllum viðeigandi fagmönnum þegar verkefnið er skráð. Sem dæmi, þegar verkefni er skráð fyrir smiði, þá sjá allir fagmenn sem eru skráðir sem smiðir verkefnið. Einnig sjást upplýsingar um húseiganda á sama hátt og verkefnið sem auglýst er. Upplýsingar um notendur sem eru fagmenn birtast þegar verkefni hefur verið stofnað. Birting á upplýsingum um fagmenn miðast við verk sem skráð er og er viðeigandi fyrir notenda. Húseigandi getur óskað eftir tilboði frá hverjum fagmanni sem honum hugnast.
2.2. Prófíll notanda
Þegar notandi hefur búið til sinn prófíl í appinu getur hann valið að vera húseigandi, fagmaður eða bæði. Upplýsingar um verkefni sem skráð er, ásamt upplýsingum í prófíl húseigenda, eru auglýstar fyrir öllum notendum þegar verkefni eru skráð.
Með því að skrá prófíl fær notandi, hvort sem hann er húseigandi eða fagmaður, aðgang að Kozmoz appinu og þannig hefur Kozmoz efnt samning um þjónustu sína við notanda. Notandi gerir sér grein fyrir því og staðfestir með notkun sinni á Kozmoz appinu að eftir að þjónustan hefur verið veitt verður ekki fallið frá samningi við Kozmoz ehf. um hana nema skv. skilmálum þessum (8. og 10. kafli).
2.3. Samningaviðræður
Í Kozmoz appinu er gert ráð fyrir að upplýsingar í tilboðum séu ekki settar fram sem bindandi tilboð heldur sem hvatning til gagnaðila um að hefja samningaviðræður um verkefni, nema annað sé sérstaklega tekið fram. Húseigandi og fagmaður geta rætt við fleiri en einn aðila um verkefni nema þeir hafi skuldbundið sig sérstaklega til annars.
Samningaviðræður geta farið fram hvar sem er (t.d. í spjallrás í appinu þegar slík spjallrás verður í boði í appinu) og húseigandi má eiga í samskiptum við fleiri en einn fagmann vegna tiltekins verks.
Ef samningaviðræður leiða til þess að fagmaður og húseigandi eru tilbúnir að gera samning, ýtir húseigandi á "samþykkja" hnappinn í appinu. Þá fær fagmaður staðfestingu á því að boð hans hafi verið samþykkt, og er þá gert ráð fyrir að þeir hafi náð samningi um verkefnið. Þeir fagmenn sem einnig byrjuðu samningaviðræður um sama verkefni við húseiganda fá tilkynningu um að boð þeirra hafi verið afþakkað, og verkefnið er þá ekki lengur sýnilegt öðrum notendum í appinu og ekki lengur hægt að bjóða í það.
Eftir að verkefni er lokið, þarf húseigandi að loka verkefninu í appinu og veita fagmanni endurgjöf, eins og er lýst í kafla 2.4 í skilmálunum. Ef húseigandi lokar ekki verkefninu þegar skráður birtingartími þess rennur út, fær húseigandi áminningu í pósthólfið sitt til að gera það.
Notandi skilur og samþykkir að með notkun Kozmoz appsins, að Kozmoz er ekki aðili að samningi milli notenda, þ.e. húseigenda og fagmanns, og kemur ekki fram sem fulltrúi eða umboðsmaður neins aðila. Notandi er sjálfstæður aðili sem gerir samning í eigin nafni.
Samningaviðræður, samningar og framkvæmd samninga eru ábyrgð notenda, hvort sem það eru húseigendur eða fagmenn. Notandi ber ábyrgð á að tryggja gildi og framkvæmd samninga, og að sá sem gerir samning hafi viðeigandi umboð til þess að skuldbinda sig til samningsins.
Notandi samþykkir með notkun Kozmoz appsins að Kozmoz er ekki ábyrgt fyrir samningaviðræðum eða samningum á milli notenda appsins (eða eftir atvikum annarra aðila). Kozmoz býður ekki upp á aðstoð við framkvæmd eða úrlausn samninga á milli fagmanna og húseigenda.
2.4. Umsögn og stjörnugjöf
Þegar húseigandi merkir verkefni sem "klárað" í appinu, er hann hvattur til að veita endurgjöf, sem felur í sér umsögn og stjörnugjöf (1-5 stjörnur), um upplifun hans af samstarfi við fagmann.
Endurgjöfin birtist strax í prófíl fagmanns og er markmiðið að hjálpa notendum að taka upplýstar ákvarðanir þegar þeir velja þjónustu tiltekins fagmanns.
Endurgjöfin skal endurspegla raunverulega upplifun notanda og þarf að vera hlutlæg, málefnaleg og tengjast verkefninu sem auglýst var, þ.e. verkefninu sem húseigandi og fagmaður gerðu samning um, og innihalda viðeigandi upplýsingar. Endurgjöfin skal vera gagnleg fyrir aðra notendur.
Endurgjöf skal ekki sett fram með villandi hætti t.d. til að skemma fyrir öðrum notendum eða skaða hagsmuni annarra. Ómálefnalegar endurgjafir t.d. endurgjafir sem byggja á hótunum, þvingunum eða misnotkun teljast alvarleg brot á skilmálum þessum.
Kozmoz les ekki yfir endurgjöf né sannreynir réttmæti hennar, svo notendur þurfa að taka tillit til þess að veitt endurgjöf getur verið röng eða villandi og stafar ekki frá Kozmoz.
Ef notandi telur að umsögn fari gegn skilmálum þessum, getur hann haft samband við Kozmoz á tölvupóstfangið: kozmoz@kozmoz.app.
Kozmoz áskilur sér rétt til að fjarlægja endurgjöf ef við teljum að það sé nauðsynlegt, t.d. ef um greinilegt brot á skilmálum er að ræða. Auk þessa getur Kozmoz takmarkað eða lokað aðgangi notanda að appinu ef skilmálar eru brotnir á alvarlegan hátt. Notandi samþykkir með notkun á Kozmoz appinu að fylgja niðurstöðu Kozmoz um að fjarlægja endurgjöf og takmarka eða loka aðgang notanda að appinu.
Húseigandi getur sjálfur, að eigin frumkvæði, beðið um að fjarlægja endurgjöf sem hann hefur veitt fagmanni.
3. Persónuupplýsingar
Ákvæði þessa kafla kveður á um kröfur og skilyrði sem aðilum ber að uppfylla í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga vegna þjónustu Kozmoz.
Kozmoz vinnur persónuupplýsingar til að;
- svara fyrirspurnum
- til að upplýsa um nýjar vörur eða breytingar á vörum, þjónustu eða viðskiptaskilmálum og gjaldskrá
- staðreyna notendur t.d. með fyrirspurn til Þjóðskrá eða Creditinfo
- samkeyra persónuupplýsingar þínar við viðskiptasögu þína í viðskiptamannakerfi okkar
- gefa út reikninga vegna veittrar þjónustu
- framkvæma gæðamælingar á þjónustu með það fyrir augum að bæta þjónustu og þjónustuframboð
- við leiðréttingar, afgreiðslu ábendinga og til að leysa deilumál
- koma í veg fyrir ólögmæta háttsemi eða misnotkun á kerfum Kozmoz
Vinnsla persónuupplýsinga tekur til notenda sem og annarra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til þess að Kozmoz geti veitt þjónustu samkvæmt skilmálum.
Kozmoz er heimilt að miðla persónuupplýsingum með þriðju aðilum í eftirfarandi tilfellum;
- til að uppfylla lagaskyldur, í samskiptum við yfirvöld eða til að verjast réttarkröfu
- vegna innheimtu og vanskila
- til að staðreyna notanda
- til að bæta og þróa þjónustu Kozmoz
- ef Kozmoz er í söluferli eða aðrar skipulagslegar breytingar fela í sér breytingar á starfsemi fyrirtækisins sem hafa áhrif á hvar upplýsingarnar eru unnar að því tilskildu að viðeigandi öryggis og trúnaðar sé gætt
Notandi og Kozmoz mega aðeins vinna persónuupplýsingar á þann hátt sem er nauðsynlegur til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt skilmálum, löggjöf um persónuvernd eða samkvæmt fyrirmælum yfirvalda. Hvor aðili fyrir sig skal, hvað þær persónuupplýsingar varðar:
- uppfylla ákvæði laga um persónuvernd, að teknu tilliti til eðlis vinnslunnar og þeirra upplýsinga sem aðilar hafa aðgang að, þ.m.t. í tengslum við réttindi skráðra einstaklinga, mat á öryggisráðstöfunum, tilkynningum og ráðgjafar til Persónuverndar
- bera ábyrgð á að veita hinum skráðu viðeigandi upplýsingar (fræðslu) um vinnsluna í samræmi við löggjöf um persónuvernd, þ.m.t. með aðgengilegri persónuverndarstefnu
- tryggja trúnað um vinnslu þeirra persónuupplýsinga sem samstarfssamningur aðila tekur til. Tryggja að starfsmenn og aðrir sem hafa aðgang að persónugreinanlegum upplýsingum séu bundnir trúnaði, fái fullnægjandi þjálfun við vinnslu og meðferð persónuupplýsinga. Trúnaðarskylda helst eftir að þjónustu Kozmoz er hætt
- eyða eða afhenda hinum skráða allar persónugreinanlegar upplýsingar sem ekki er skylda til að varðveita samkvæmt lögum
- gæta þess að tæki og tól, vörur, forrit og þjónusta séu hönnuð með innbyggða og sjálfgefna persónuvernd að leiðarljósi
- gera viðeigandi öryggisráðstafanir ef persónuupplýsingar eru fluttar út fyrir Evrópska efnahagssvæðið
Einstaklingum skulu tryggð réttindi sem fram koma í Persónuverndarstefnu Kozmoz og birt er á vefsíðunni www.kozmoz.app
Notandi ber að tilkynna Kozmoz innan 24 tíma ef grunur leikur á óviljandi, óheimila eða ólöglega vinnslu persónuupplýsinga eða ef um hvers konar öryggisbrot við meðferð á persónuupplýsingum sé að ræða. Tilkynninguna skal senda á netfangið kozmoz@kozmoz.app Í slíkri tilkynning skal notandi lýsa eðli brotsins, þ.á.m. þeim flokkum og áætluðum fjölda skráðra einstaklinga sem það varðar og flokkum og áætluðum fjölda skráninga persónuupplýsinga sem um ræðir. Þá skal notandi lýsa líklegum afleiðingum brotsins og þeim ráðstöfunum sem hann hefur gert eða fyrirhuguð að gera vegna öryggisbrotsins. Notandi ábyrgist að halda Kozmoz skaðlausu í tengslum við hvers konar kostnað sem Kozmoz kann að þurfa að greiða vegna vanefnda í tengslum við reglur um tilkynningu um öryggisbrot.
Kozmoz ehf. er ekki ábyrgt fyrir þeim upplýsingum sem notandi velur að deila með öðrum aðila eða notenda t.d. í tengslum við samningaviðræður eða samninga. Notendur sem vinna með persónuupplýsingar annarra notenda, þar sem þeir sjá um framkvæmd, tilgang og aðferðir vinnslunnar, eru sjálfstæðir ábyrgðaraðilar slíkrar vinnslu og bera þær lagaskyldur sem af því leiðir.
Fyrir frekari upplýsingar um persónuvernd er vísað í Persónuverndarstefnu Kozmoz ehf.
4. Greiðsla fyrir notkun á Kozmoz
Notandi samþykkir að greiða Kozmoz fyrir þá þjónustu sem Kozmoz veitir og notandi nýtir sér í samræmi við gildandi verðskrá Kozmoz hverju sinni og aðgengileg er á vefsíðunni www.kozmoz.app.
Kozmoz áskilur sér rétt til að breyta verðskránni hvenær sem er en notendum verður tilkynnt um slíkar breytingar fyrirfram. Tilkynning um breytingar á verðskránni er framkvæmd á sama hátt og breytingar á þessum skilmálum sbr. 9. kafli.
5. Skyldur notanda
Notanda er skylt að skrá réttar, sannar og fullnægjandi upplýsingar í Kozmoz appið. Notandi ber ábyrgð á upplýsingum sem hann setur í prófílinn sinn eða á annan stað Kozmoz appinu, í hvaða formi sem upplýsingar eru settar fram þ.m.t. í formi texta, skjala, mynda, hljóð- eða myndupptaka. Notandi ábyrgist og skal tryggja að hann eigi rétt til að nota þær upplýsingar sem hann setur fram m.a. í samræmi við lög og reglugerðir. Með því að bæta upplýsingum við prófílinn sinn eða pósthólfið samþykkir notandinn að Kozmoz hafi ótakmarkaðan rétt til að nota efnið á hverjum stað og birta það fyrir þriðja aðila.
Fagmaður og/eða húseigandi ber sjálfur ábyrgð á því að fylgja gildandi lögum sem varða þeirra starfsemi, þ.m.t. lögun um handiðnað, lögum um vinnu barna og unglinga, lögræðislögunum, lögum um virðisaukaskatt o.fl. Notandi er einnig ábyrgur fyrir því að hann hafi réttindi og umboð til að gera samninga og að starfsemi hans sé í samræmi við lög og reglugerðir og að samningar sem hann gerir brjóti ekki gegn betri rétti þriðja manns.
Notandi er bundinn til að eiga samskipti við Kozmoz og aðra notendur í samræmi við tilgang appsins, í samræmi við skilmála þessa og í samræmi við lög. Notanda er einnig skylt að nota appið á viðeigandi hátt og eftir góðum siðum og venjum.
Ef notandi veitir öðrum aðila aðgang að sínu fyrirtæki, t.d. starfsmanni sínum, ber skráður notandi alla ábyrgð á notkun þess aðila að Kozmoz appinu.
Bannað er að nota Kozmoz appið til að auglýsa annað efni eða þjónustu en lýst er í skilmálum þessum. Það er einnig bannað að dreifa ólöglegu eða óviðeigandi efni í Kozmoz appinu. Kozmoz hefur rétt til að ákveða hvort efni sé í mótsögn við skilmála þessa og taka viðeigandi ráðstafanir.
Notanda er óheimilt að draga út eða endurnýta gögn eða upplýsingar sem safnað er úr gagnagrunninum í þeim tilgangi að gera slíkt hluta af öðrum gagnagrunnum ("skjáskröpun"). Óheimilt er að afrita eða endurgera hugbúnaðinn sem Kozmoz appið byggir á, þ.m.t. að gera afrit, dreifa hugbúnaðinum, birta eða gefa út hugbúnaðinn, þýða, aðlaga, raða eða breyta hugbúnaðinum á nokkurn hátt, hnýsast í innviði (e. reverse engineering), afkóða, taka sundur eða reyna að komast yfir forritunarkóðann á annan hátt, reyna að brjóta öryggisvarnir forritsins eða ráðast á forritið á annan hátt, reyna að fá aðgang að hlutum appsins sem notendur hafa ekki rétt á að fá aðgang að eða er ekki með leyfi frá Kozmoz til þess, koma í kring yfirálagi á þjónustuna með sjálfvirkni, að öðru leyti aðhafast eitthvað sem getur skaðað virkni Kozmoz appinu eða nota Kozmoz appið í ósamræmi við tilgang þess, eða brjóta gegn hugverkaréttindum Kozmoz.
Notanda er skylt til að tilkynna um öryggisbresti í appinu ef þeir verða varir við þá. Notandi er einnig ábyrgur fyrir öryggi og trúnaði varðandi aðgangskóða sína og þurfa að gæta að viðeigandi öryggisráðstöfunum.
Ef notandi verður var við galla í appinu getur notandi haft samband við Kozmoz. Notandi skilur að það getur tekið tíma að leysa vandamál og að þjónusta getur verið takmörkuð á meðan galli er í appinu.
Notandi samþykkir að Kozmoz getur nýtt upplýsingar sem eru skráðar í appið til að vinna úr þeim ópersónugreinanlegar heildarupplýsingar í samræmi við tilgang appsins og verkefnum í appinu.
6. Takmörkun ábyrgðar
Notandi skilur að Kozmoz appið er vettvangur til að tengja saman húseigendur og fagmenn og ber Kozmoz enga ábyrgð á hvað kemur út úr samskiptum á milli notenda. Kozmoz tekur ekki ábyrgð á útkomu neinna samningaviðræðna eða samninga milli notenda og greiðir ekki endurgjöld. Einnig ber Kozmoz ekki á ábyrgð á réttmæti eða nákvæmni upplýsinga sem notendur setja inn eða á gildi samninga eða hverskonar tilboða eða loforða á milli notenda. Þetta á m.a. við um hæfni fagmanns, verklýsingar verkefna og greiðsluhæfi húseigenda. Kozmoz gerir ekki sérstaka skoðun á notendum eða þeirra upplýsingum og gefur enga viðurkenningu, meðmæli eða ábyrgð á notendum eða upplýsingum þeirra. Kozmoz ber heldur ekki ábyrgð á röngum upplýsingum frá öðrum aðilum (þriðja aðila) sem birtar eru í appinu t.d. gögnum sem sótt eru frá opinberum aðilum eða einkaaðilum (t.d. af vefsíðum þeirra) og nálgast má í appinu. Þetta á meðal annars við um teikningar frá sveitarfélögum, upplýsingar úr fasteignaskrá HMS, o.fl.
Notandi er skuldbundinn til að gæta varúðar við að nota þjónustuna, þar sem Kozmoz tekur ekki ábyrgð á öryggisbrestum eða afleiðingum þeirra. Kozmoz veitir ekki ábyrgð á meðferð upplýsinga sem notandi veitir eða deilir á einhvern hátt með öðrum notanda. Kozmoz ber ekki ábyrgð á mati notanda eða notkun þessarra upplýsinga. Ef tenglar á aðrar vefsíður eru í prófíl notanda eða í spjallrásum, þá getur Kozmoz undir engum kringumstæðum borið ábyrgð á efni eða innihaldi slíkra tengla.
Í starfsgreinum sem falla undir lögvernd geta aðeins þeir sem hafa viðeigandi leyfi stundað starf í þeim og notað viðeigandi starfsheiti. Kozmoz ber enga ábyrgð á birtingu upplýsinga um menntun, starfsreynslu eða önnur gögn sem notendur skrá inn í appið.
Kozmoz er ekki bótaskylt fyrir tjóni notanda t.d. vegna útgjalda eða annars kostnaðar sem notandi kann að verða fyrir í samskiptum sínum við annan notanda t.d. vegna svika, skemmda eða vanefnda.
Kozmoz ber ekki ábyrgð á því ef tilkynnignar berast ekki, þeim seinkar eða þær reynast gallaðar.
Tungumálaþýðing í Kozmoz appinu er sjálfvirk og tekur Kozmoz enga ábyrgð á nákvæmni og réttleika þýðingarinnar. Ef notandi notar þýðingu til að taka ákvörðun, þá gerir hann það á eigin ábyrgð.
Kozmoz ber ekki ábyrgð á tjóni notanda vegna lagaboða, stjórnvaldsaðgerða, styrjalda, hryðjuverka, verkfalla, verkbanna, hindrana eða annarra álíka aðgerða. Þetta á einnig við ef þriðji aðili beitir slíkum aðgerðum eða verður fyrir þeim. Kozmoz ber hvorki ábyrgð á tjóni vegna rafmagnstruflana né rafmagnsleysis eða vegna truflana í netkerfi, símkerfi, öðrum boðleiðum eða samgöngum.
Ef Kozmoz appið reynist óaðgengilegt t.d. vegna niðritíma eða annars atviks, þá er notandi meðvitaður um að Kozmoz er ekki skylt að bæta mögulegt tjón sem verður vegna þess.
Notandi skilur og samþykkir þær ábyrgðartakmarkanir sem taldar eru upp í skilmálum þessum með notkun sinni og að notkun þjónustunnar er á eigin ábyrgð notanda.
7. Hugverkaréttur
Kozmoz ehf. er löglegur eigandi höfundarréttar Kozmoz appsins og er einnig eigandi vörumerkisins. Allt efni í Kozmoz appinu, þar á meðal hönnun, texti, myndir, tákn og önnur hugverk, er verndað undir höfundarréttarlögum og annarra laga um hugverk. Notkun eða dreifing á þessu efni er óheimil án skriflegs leyfis frá Kozmoz.
Með notkun Kozmoz appsins samþykkir notandi að nota efnið í samræmi við tilgang þjónustunnar og skilmála þessa og að afritun, fjölföldun eða dreifing á efni þessu er óheimil án fyrirfram skriflegs leyfis frá Kozmoz. Notkun á þjónustunni getur eingöngu átt sér stað í samræmi við skilmála þessa.
Kozmoz veitir notanda rétt til að nota hugverkaréttinn sem nauðsynlegt er til að vera virkur þátttakandi í þjónustunni sem Kozmoz býður upp á og er öll önnur notkun óheimil án leyfis frá Kozmoz.
8. Brot á skilmálum
Í tilvikum þar sem notandi brýtur gegn skilmálum þessum eða öðrum skilmálum sem gilda um notkunina er Kozmoz heimilt að gera viðeigandi ráðstafanir. Slíkar ráðstafanir geta falið í sér að; loka aðgangi notanda fyrirvaralaust, tímabundið eða ótímabundið, viðskiptabann eða önnur viðeigandi úrræði í samræmi við lög. Þetta gildir sérstaklega ef notandi brýtur alvarlega gegn skilmálum, svo sem með ólögmætum, ósiðlegum eða óviðeigandi hætti. Notandi ber ábyrgð á þessum ráðstöfunum og hefur ekki rétt á neinum bótum vegna mögulegs tjóns sem af þeim getur fylgt.
Það er alltaf talið alvarlegt brot á skilmálum ef notandi brýtur gegn skyldum sínum samkvæmt skilmálum eða dreifir hatursfullu, ólöglegu eða óviðeigandi efni í gegnum Kozmoz appið.
Það telst einnig alvarlegt brot ef notandi deilir upplýsingum úr Kozmoz appinu sem brjóta gegn lögum eða skilmálum eða gætu skaðað velvild, orðspor og vörumerki Kozmoz. Sama á við ef notandi býr til prófíl eða auglýsingu um verkefni sem byggir á óleyfilegri skráningu samkvæmt skilmálum eða notar Kozmoz appið í villandi, ólögmætum eða sviksamlegum tilgangi að mati Kozmoz.
Kozmoz áskilur sér rétt til að fjarlægja allt efni úr appinu sem Kozmoz telur að brjóti gegn skilmálum þessum og gera viðeigandi ráðstafanir þegar þörf er á. Notandi ber ábyrgð á því að efni sem hann setur í Kozmoz appið og að það sé í samræmi við lög og áskilur Kozmoz sér rétt til þess að fjarlægja efni úr appinu sem grunur kann að leika á að brjóti í bága við lög. Með því að nota þjónustuna samþykkir notandi að hlíta mati Kozmozs hvað þetta varðar. Leiki grunur á að notandi stundi ólögmæta háttsemi áskilur Kozmoz sér rétt til að upplýsa viðeigandi yfirvöld um slíkt. Ef efni er fjarlægt verður notandi að jafnaði upplýstur um ástæðu þess nema að slík tilkynning kunni að brjóta lög eða geti eyðilagt rannsókn á ólögmætu athæfi eða skaðað hagsmuni þriðja aðila.
9. Breytingar á skilmálum
Kozmoz hefur rétt til að gera breytingar á skilmálunum þessum eftir þörfum hverju sinni. Kozmoz mun tilkynna notenda um slíkar breytingar með tölvupósti á netfang notenda og Kozmoz mun birta uppfærðu útgáfu á vefsíðunni www.kozmoz.app. Notandi samþykkir breytingarnar hverju sinni með því að halda áfram að nota Kozmoz appið eftir að breyting hefur verið gerð á skilmálum eða verðskrá. Ef notandi ákveður að hafna breytingum telst það jafngilda uppsögn á þjónustu Kozmoz.
10. Uppsögn
Samningur á milli notanda og Kozmoz skv. skilmálum þessum er í gildi frá því að notandi byrjar að nota appið og þar til annar aðilinn segir honum upp í samræmi við skilmála þessa. Kozmoz hefur heimild til að rifta samningi fyrirvaralaust ef brotið er gegn skilmálum þessum.
Notandi hefur rétt til að segja upp þjónustu Kozmoz ef hann óskar eftir því. Ef notandi er í áskrift er uppsagnartími 30 dagar og tekur gildi fyrsta mánaðar dag næsta mánaðar eftir að þjónustu er sagt upp.
Notandi sem er ekki í áskrift getur hætt þjónustu með því að eyða prófíl sínum í appinu. Þegar notandi sem ekki er í áskrift eyðir prófílnum sínum, tekur uppsögnin strax í gildi og prófíllinn verður fjarlægður.
Kozmoz hefur rétt til að segja upp þjónustu notenda ef þeir brjóta gegn skilmálum eða það er nauðsynlegt til að vernda lögmæta hagsmuni Kozmoz eða þriðja aðila. Við uppsögn frá Kozmoz mun notendum berast tilkynning, aðgangur þeirra verður lokaður og prófíllinn verður fjarlægður úr appinu.
11. Eigendaskipti á Kozmoz appinu eða Kozmoz ehf.
Með notkun á Kozmoz appinu samþykkir notandi, að eignarhald Kozmoz ehf. og þar með Kozmoz appins, eða eignarhald á Kozmoz appinu, getur verið flutt til þriðja aðila, hvort sem það er í heild eða til hluta, ásamt öllum upplýsingum sem Kozmoz appið geymir. Það sama á við um önnur lögleg eigendaskipti sem snúa að Kozmoz ehf. og Kozmoz appinu, hvort sem það er í heild eða hluta. Slík eigendaskipti hafa engin áhrif á gildi þessa samnings eða réttindi og skyldur aðila skv. skilmálunum. Þegar vísað er til Kozmoz eða Kozmoz ehf. í þessum skilmálum er átt við appið eða þann aðila sem fer með eignarhald á því á hverjum tíma.
12. Lög og varnarþing
Öll réttindi og skyldur sem tengjast notkun Kozmoz appsins eða skilmálum þessum fer eftir íslenskum lögum.
Í tilfelli ágreinings milli samningsaðila vegna notkunar á Kozmoz appinu eða skilmálanna skal það leyst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur nema Kozmoz samþykki annað. Notendum sem eru húseigendur og teljast til neytenda samkvæmt lögum um þjónustukaup veitist líka kostur á að koma kvörtunum sínum til Kærunefndar um vöru- og þjónustukaup (kvth.is) varðandi þjónustu sem veitt er af Kozmoz.
13. Tungumál og samskipti
Þessir skilmálar eru útgefnir á íslensku og ensku. Í tilfelli misræmis milli tungumálaútgáfa, gildir íslenska útgáfan.
Öll samskipti milli Kozmoz og notenda eiga að fara fram á íslensku eða ensku tungumáli og með rafrænum hætti. Kveði einhver ákvæði skilmálanna eða ákvæði laga sérstaklega á um skrifleg samskipti, er skriflegt pappírsform ekki nauðsynlegt, ef Kozmoz hefur gert ráðstafanir gagnvart notanda um skrifleg samskipti á netfang hans með einföldum rafrænum undirskriftum eða í gegnum Kozmoz.
Ef notandi hefur athugasemdir, ábendingar eða kvartanir varðandi þjónustu Kozmoz, getur hann sent þær á netfangið kozmoz@kozmoz.app. Miðað er við að kvartanir fái meðhöndlun innan 30 daga en getur tekið lengri tíma.
14. Gildistaka
Þessir skilmálar taka gildi frá 1. júlí 2024.